Síðasta sumar, í ágúst 2019, fór ég ásamt heilum helling af félögum mínum úr björgunarsveitinni Ársæli að ganga á austur Grænlandi. Förinni ver heitið til Ammassalik þar sem átti að ganga kringum Ammassalik eyju en ferðin hafði verið í skipulagningu í nokkuð langan tíma. Gengið var með allt á bakinu, þ.m.t. riffill, tvær haglabyssur, skot og smá sameiginlegan búnað. Það voru svo samtals 22 sem lögðu af stað með flugi frá Reykjvaíkurflugvelli til Kulusuk í 8. ágúst. Gengir voru um 70 km á 4,5 dögum.

Dagur 1
Ég fór tveimur dögum á undan hópnum og undirbjó örfáa hluti, hitti félaga minn sem hafði verið í Kulusuk síðan seinnipart júní o.fl. Þau lentu svo um morguninn 8. ágúst á flugvellinum í Kulusuk þar sem við fengum kunningja okkar á hótelinu í Kulusuk til þess að skutla bakpokunum niður í bæ og við gengum á eftir. Gangan niður í bæ tekur rúman háfltíma en við tjölduðum rétt fyrir utan bæinn. Þegar gengið er í óbyggðum Grænlands á þessum slóðum þarf að standa næturvakt og bera skotvopn til þess að geta varist ísbjörnum. Þeir eru á ferðinni þarna einstaka sinnum á sumrin og geta verið ágengir. Önnur er sagan á veturna þegar heimsóknir þeirra eru talsvert tíðari. Við fengum því lánaðan riffil og höfðum komið með tvær haglabyssur frá Íslandi. Með svona stóran hóp var öruggara að vera með fleiri en eina byssu.
Eftir uppsetningu tjaldbúða skiptumst við í tvennt. Hluti af hópnum hafði komið með klettaklifurdót og fengu lánað hjá okkur í Nunatak það sem upp á vantaði og fóru að skoða leiðir sem Íslenskir Fjallaleiðsögumenn hafa sett upp í Kulusuk. Við hin fórum í skoðunarferð um bæinn. Kulusuk er ekki stór bær, þar búa um 200 manns. Samanborið við 2000 manns í Tasiilaq sem er stærsti bær á austurströnd Grænlands. Eftir gönguferðina þurfti að taka smá æfingu á riffilinn. Við komum við í búðinni í Kulusuk og keyptum 30-06 skot í hann og slug í haglabyssurnar, fórum vel útfyrir bæ og skytturnar okkar æfðu sig í að skjóta brúsa sem við fundum liggjandi úti.


Á tjaldsvæðið höfðu elt okkur þrír hvolpar sem enn voru lausir í bænum. Grænlenski sleðahundurinn er sá hundur sem er skyldastur heimskautaúlfinum og hvolparnir því ekki litlir og hundarnir keimlíkir úlfum. Þó þeir hafi verið ágengir og étið matarafganga sem duttu í sandinn sást það um nóttina hvaða gildi það getur haft að hafa svona hunda með í för. Laust fyrir miðnætti höfðu unglingar úr bænum komið sér fyrir uppi á hól við tjaldsvæðið okkar og voru með læti og ætluðu að koma nær tjaldsvæðinu. Drykkja hefður verið vandamá á Grænlandi og löggæsla ekki með því móti sem við þekkjum úr vestrænum heimi. Hvolparnir vöknuðu við þessa krakka og létu í sér heyra (vöktu reyndar okkur) svo fljótlega þá létu þau sig hverfa. Ég hef meira að segja heyrt það frá Grænlendingi í Kulusuk að í “gamla daga” hafi tylft af fullvaxta hundum verið þjálfuð í því að drepa ísbirni ef þyrfti… Ekkert grín að ætla á móti þessum úlfum.






Dagur 2
Á öðrum degi rifum við okkur upp um morguninn og pökkuðum öllu saman og ofan í bakpokana. Við áttum stefnumót við Lars Anker Möller frá Arctic Dream Aps í Tasiilaq kl. 08:00 á bryggjunni í Kulusuk. Hann tók okkur svo yfir á Ammassalik eyju þangað sem gangan hófst. Siglingarleiðin tók tæpan klukkutíma ef ég man rétt og á spegilsléttums sjá á leiðinni sáum við nokkra hnúfubaka og nutum einstaks útsýnisins í góða verðinu. Veður á Grænlandi á sumrin er yfirleitt mjög gott. Rigningardagar í júní eru sjö, eins í júlí og einum fleiri í ágúst, svona að meðaltali skv. dönsku veðurstofunni. En þessa fáu daga sem rignir rignir einstaklega lítið. Viðvarandi hæð yfir Grænlandi gerir það að verkum að oft er bjart veður en einnig þoka seint á nóttin og fram á morgun þar sem flestir staðir liggja nærri sjó.

Fyrsta dagleiðin var torfarin og við komumst ekki nema 11 eða 12 km á tæpum 10 klst. Mikið var af stóru grjóti, oft eins og að ganga í fjörugarði, og stærð hópsins hægði einnig dálítið á. Við þveruðum örfáar ár, en þó engar enn þar sem þurfti að vaða mikið, oftast hægt að komast yfir í góðum gönguskóm. Við vorum öll að læra inn á hvert annað, hvernig hópurinn funkeraði o.þ.h.
Upprunalega planið var að ganga utan um Ammassalik eyju og enda í Tasiilaq. Eftir fyrsta daginn áttuðum við okkur á því að í svona undirlagi með þessa stærð af hóp myndum við ekki ná að komst yfir jafn marga km á dag og upprunalega hafði verið áætlað. Með 1:100.000 kortið okkar (sem er það besta sem er í boði fyrir þetta svæði!) tókum við nýjar ákvarðanir og ákváðum að þvera eyjuna þar sem við héldum að undirlagið væri betra og leiðin þá orðin dálítið styttri. Ekkert símasamband er þarna eða önnur almenn fjarskiptatenging. Við stóluðum því að öllu leiti á sjálf okkur fyrir allt og eitt gervihnatta tæki frá Garmin sem gat sent sms skilaboð (inReach). Við vorum með tvo hjúkrunarfræðinga sem hafa góða reynslu af utanspítalaþjónustu í hópnum, reynda göngu- og leiðsögumenn svo við vorum vel sett.

VIð enduðum því fyrsta daginn þar sem við horfðum út dalinn til norðvesturs, þreytt eftir göngu á erfiðu undirlagi en spennt fyrir framhaldinu. Veðrið hafði verið æðislegt og útsýnið enn betra (og þetta átti bara eftir að batna!).
Ef smellt er á myndina af kortinu þá ætti það að taka mann á vefsíðuna þar sem við pöntuðum slatta af þessum kortum. Ég hef bara fundið þau til sölu þarna og á flugvellinum í Kulusuk. Á þessari vefsíðu eru líka til sambærileg kort fyrir aðra staði á Grænlandi.
Myndirnar hér að neðan gefa bara smá, bara smá hugmynd um hversu magnað það var að ganga þarna.









Dagur 3
Á þriðja degi, örðum göngudegi, gengum við fyrir hornið nyrst á eyjunni. Fram að því var gangan fín. Flott hvíldarsvæði, drykkjarvatn og eitt vað niður við sjó en enn grýtt undirlag. Hornið sjálft var þverað í granítbrekku sem á köflum var frekar brött og við þurfum að hækka okkur svolítið samhliða því. Ég hefði ekki vilja vera þarna í blautu því þá verður granítið eins og vatnsrennibraut, svo sleipt getur það orðið. Gott að það rignir lítið sem ekkert þarna á sumrin 😉 Eftir granítbrekkuna tók við skárri kafli og við komum að fyrsta (og reyndar eina) alvöru vaðinu. Þar þurfti að fara yfir jökulá nánast alveg við upptökin, kannski 20 m breið. Það var kalt. Alveg ógeðlsega kalt. Þegar maður var rúmlega hálfnaður með vaðið var öll tilfinning gjörsamlega horfin úr fótunum og því mikilvægt að vera í góðum vaðskóm sem ekki geta flotið í burtu! Botninn var grýttur á köflum og dálítill straumur í ánni. Við gengum því tveir yfir saman til að kanna aðstæður og studdumst við göngustafi. Síðan fylgdi restin af hópnum í þriggja manna keðjum.

Eftir að allir höfðu fengið tilfinningu í fæturnar og þurrkað sér var farið af stað. Við tók einn allra erfiðasti kafli göngunnar í heild. Við þurftum að þvera mjög stórgrýtta brekku. Hallinn svona 30° ef ég ætti að giska núna og það hefur líklega tekið tvo tíma eða meira því þegar yfir og niður hana var komið tjölduðum við og fórum að sofa. Myndin hér að neðan sýnir rosalega stærð á þessum granít hnullungum sm við gengum um og á. Tjaldsvæðið var með útsýni út á Sermillik fjörðinn sem fullur er af borgarís og við sáum yfir til Tinit, smábæjar við fjörðinn. Ekki slæmt!

Dagur 4
Göngudagur 3. Eftir tvo erfiða daga þar sem við gengum í einu magnaðasta landslagi sem flest okkar hafa komið í náði ferðin ákveðnum hápunkti að mínu mati. Hópurinn var farinn að þekkjast vel, hvernig hentaði okkur að ganga til að halda betri meðalhraða, hvernær átti að taka pásur o.fl. Og útsýnið var stórkostlegt, magnað, ægifagurt og önnur sambærileg gildishlaðin lýsingarorð. Við náðum okkur í lang mestu hækkunina þennan dag þar sem við gegnum frá sjávarmáli upp í ca 500 m og niður um 200-300 m aftur upp aftur í 500 m og svo niður fyrir 100 m. Á kortinu sést að gengið er upp í móti og á milli jökla. Í baksýn er Sermillik fjörðurinn sneisafullur af jökulís, svo gott sem heiðskýr himinn og fyrir framan mann tindar, jöklar og vötn í ósnortinni náttúru Grænlands. Verður varla betra. Hádegispásan var tekin milli jöklanna á einum hápunkta dagsins þar sem útsýnið var hvað best. Við stoppuðum í daggóða stund, afklæddumst, kældum sveitta fætur og horfum út á ísfjörðinn. Tjaldsvæðið var svo inn í miðri eyju við nyrsta af nokkrum vötnum sem þar eru.







Dagur 5
Fimmti dagur ferðarinnar var fjórði og næst síðasti göngudagurinn. Hann var líklega líka sá auðveldasti hingað til. Við efsta vatnið þar sem við gistum eru tveir eða þrír örsmáir skálar sem heimamenn nota líklega sem veiðikofa og því sást móta fyrir troðnum gönguslóða af og til þennan dag. Framundan var nánast bara lækkun svo ferðin gekk talsver hraðar en áður og við gengum rétt tæpa 18 km.
Eitthvað var nú myndastoppunum farið að fækka þegar liðið þreyttist og ég átti bara eina ágæta á þessum 18 km og svo eina af “kvöldvökunni”.

Það var bara þennan dag sem það var einhver gróður að ráði ofan á granítinu svo við gátum þægilega sest í hring og spjallað um kvöldið. Einhverjum datt í hug að reyna kveikja dálítinn eld og það tóks með lyngi og öðru þurru sem fannst í nágrenninu. Það þurfti þó stanslaust að vera að bæta lyndi á eldinn þar sem það brann hratt. Ekki skilvirkt, fínt fyrir stemninguna í smá stund en ekkert til að elda yfir…

Dagur 6
Dagurinn byrjaði svona…
Til hægri sjást hjúkrunarfræðingarnir Sigrún og Kolla. Þær höfðu séð til þess að það sem þyrfti sjúkrabúnaði, lyfjum o.þ.h. til þess að bregðast við hinu óvænta væri með. Og þarna á fimmta degi göngunnar kom það sér vel. Þær teipuðu hæla, tær og gerðu að sárum áður en við lögðum af stað, enda margir orðnir lúnir í fótunum eftir ca 60 km labb. Svo hafði einn fegnið flugnabit á einstaklega óþægilegum stað, á innanverðu lærinu við stroff á hnéhlíf sem hann gekk með. Síðan hafði komist sýking í bitið og allt fór að bólgna! Sem betur fer voru breiðvirk sýklalyf eitt af því sem tekið hafði verðið með og þegar Sigrún og Kolla höfðu pakkað sárinu inn gátu allir haldið af stað. Við vorum því með svona lítinn ferða-spítala þarna í miðjum óbyggðum.
Svo hefði mátt halda að ferðin hefði verið styrkt af Osprey bakpokaframeliðandanum, svo hátt hlutfall var af pokum frá þeim. Og af 22 bakpokum voru 6 rauðir Osprey! Hér er mynd af rauða teyminu með haglabyssu rétt áður en gengið var af stað síðasta daginn.

Á loka metrunum, þegar komið var niður í fjöru og við áttum bara eftir að ganga að Tasiilaq í 1-2 klst fannst áhugaverður hlutur í sandinum. Davíð (þriðji frá hægri á myndinni hér að ofan) hafði verið að benda á hversu ágætt það væri nú að geta bara sest niður og opnað ein kaldann á staðnum, aðeins að hvíla sig. Hann hafði varla sleppt orðinu þegar honum er litið niður í sandinn og sér þar eina Carlsberg dós, tekur hana upp, og sér að hún var óátekin! Honum varð því ágætlega að ósk sinni þarna í fjörunni og gat opnað eina dós.
Gangan sjálf endaði síðan þegar við komum inn í Tasiilaq austanmegin. Þar var farið beint í Pilersuisoq, búðina, og keyptur ís, nammi og annað sem ekki hafði verið með í bakpokunum síðustu daga. Síðan var gengið upp fyrir bæinn og við komum tjöldunum fyrir í blómadalnum, rétt fyrir ofan kirkjugarðinn. Kíktum á barinn niðri við höfn, skoðuðum bæinn og slöppuðum af. Allir komnir úr gönguskónum 🙂
Dagur 7
Þar sem allt hafði gengið upp og áfalla laust áttum við auka dag til þess að gera eitthvað í eða við Tasiilaq. Partur úr hópnum svaf út og gerði fátt á meðan hinir fóru í siglingu kringum Ammassalik eyjuna. Við vorum mætt niður á höfn um morguninn og fórum þar í báta hjá Lars úr Arctic Dream. Túrinn sigldi rangsælis kringum eyjuna með stoppi í Tinit, bænum sem við höfðum séð á hægri hönd (ekki á eyjunni) á öðrum göngudegi. Síðan var siglt suðvestur út Sermillik ísfjörðinn milli borgarísjakanna, stutt stopp í smábæ sem lagðist í eyði, og síðan til baka til Tasiilaq. Fínasta viðbót við ferðina. Á myndinni að neðan sést Tinit frá Sermillik. Fjallið sem er hægra megin er hornið sem við gengum fyrir á göngudegi 2. Milli þess fjalls og fjallanna í baksýn er fjörðurinn sem sker Ammassalik eyjuna frá landinu.

Dagur 8
Þá var komið að heimferð. Öllu var pakkað saman og við hittum Lars Anker í þriðja og síðasta sinn. Hann skutlaði okkur yfir til Kulusuk þar sem við sóttum þann litla farangur sem við höfðum skilið eftir þar á fyrsta degi. Vélin frá Flugfélagi Íslands tók svo á loft á tíma og við vorum mætt aftur til Reykjavíkur um kl. 18 á íslenskum tíma. Stórmögnuð ferð með frábæru fólki sem gleymist seint.
Eitt stykki borgarís hér í lokinn.
