Hellismannaleið – hluti á Fjallabaki

Dagana 1.-2. júlí 2019 gekk ég ásamt tveimur öðrum hluta úr Hellismannaleið. Leiðin nær frá Rjúpnavöllum í Þjórsárdal og inn í Landmannalaugar að Fjallabaki. Við fengum æðislegt veður til að ganga flotta og skemmtilega leið sem hiklaust má mæla með. Það má lesa heilan helling um leiðina á netinu en leiðin er t.d. vel merkt inn á loftmyndakortið hjá www.map.is. Við gengum frá Áfangagili að Landmannahelli, gistum og gengum síðan seinni daginn inn í Laugar. Þar var björgunarsveitin mín, Ársæll, stödd í hálendisvakt og skutlaði okkur þremur síðan aftur í Áfangagil þar sem við höfðum skilið eftir bíl. Einnig ganga nokkrar rútur úr Laugum og á Hellu eða jafnvel til Reykjavíkur ef fólk hefur ekki bíl.

Til að ganga þessa leið er best að beygja upp í Þjórsárdal við Landvegamót rétt áður en komið er að Hellu. Þaðan er ekið norður fyrir Heklu og Búrfell og beygt inn á Dómadalsleið (vegur F225). Fljótlega birtist vinstri beyja merkt ‘Áfangagil’ og þaðan er ekki langur akstur að gilinu og skálanum. Beygjan af veginum og inn að skálanum er ekkert mjög greinileg og gott er að fylgjast vel með (ekki það að það sé erfitt því veginn þarf að keyra rólega…). Bíllinn sem við fórum á var alveg í það tæpasta að komast þessa leið. Vegurinn var hinsvegar fínn og þurr eftir langvarandi þurrka þetta vorið.

Fyrri daginn gengum við 21 km. Hann einkenndist af mikilli sól, svörtum sandi og fullt, fullt af mýi. Á undan okkur (annað hvort daginn áður eða um morguninn) hafði greinilega farið hestahópur þar sem mikill skítur var á leiðinni. Það ýtti að öllum líkindum undir flugnagerið sem truflaði talsvert :/ Flestar ár og sprænur á leiðinni voru þornaðar upp og eina áin sem við gátum fyllt á vatnsbrúsana okkar í var Helliskvísl, sem einnig þarf að vaða yfir. Hún er ca 10 km inn í daginn. Við vorum allir orðnir ansi þreyttir í fótunum þegar við loksins komum á tjaldstæðið við Landmannahelli og sáum þar hestastóðið sem greinilega hafði verið á undan okkur.

Við tjölduðum, fengum okkur að borða og ég fór í sturtu. Þarna er allt til alls, sturta, vaskar, vatnsklósett en lítið sem ekkert símasamband (gott!).

Seinni daginn fengum við far yfir ána við Landmannahelli með mjög almennilegum þýskum hjónum sem voru á ferð um Ísland á þýska húsbílnum sínum. Farið yfir ána varð örlítið lengra en það og við sátum í hjá þeim þar til gönguleiðin og vegurinn skerast aftur, rétt við Dómadalsvatn. Að lokum kom í ljós að það hafði sparað okkur 7 km og við gengum því bara 10 km þann daginn. Samtals 31 km ganga á tveimur dögum. Fín æfing fyrir 4-5 daga gönguna sem ég er á leið í með björgunarsveitinni minni á Grænlandi í ágúst.

Leiðin yfir fjöllin úr Dómadalnum og yfir í Laugar var mjög fín. Við gengum fram hjá nokkrum hrafntinnu raununum / innskotum og vorum svo gott sem lausir við flugurnar þann daginn (enda ekki að ganga fram hjá skít lengur!). Hinsvegar höfðum við allir brunnið ágætlega, ég líklega hvað verst, og þegar þetta er skrifað er ég byrjaður að flagna á enninu. Sólarvörnin gleymdist sem sagt… En það er án efa flottasti parturinn af leiðinni þegar komið er niður úr fjöllunum að svæðinu þar sem Laugar eru. Leiðin kemur niður í Vondugil. Horft er inn gili, yfir Laugahraunið og á Bláhnúk og Brennisteinsöldu sem er mögnuð sýn. Það brýtur upp svartan sandinn sem hafði verið áberandi mest alla leiðina. Og ekki skemmdi veðrið fyrir.

Í Laugum fengum við svo vöfflur og annað fínt áður en okkur var skutlað aftur í Áfangagil. Við þurftum að vísu að bíða örlítð á meðan björgunarsveitin sinnti tveimur útköllum en ég gat þó hjálpað eitthvað til á meðan, þrátt fyrir að vera kominn í flip flops skó og langaði ekkert aftur í gönguskóna í bili 😛

Á meðan ég finn út úr því hvernig ég set inn GPX skrár hér í póstana (ekki bara kort heldur til að hlaða niður) þá er þetta hér leiðin https://www.wikiloc.com/hiking-trails/hellismannaleid-afangagil-landmannahellir-landmannalaugar-38383500.