Ég eyddi einni helgi fyrir stuttu á Kili í húsi Veðurstofunnar. Nýtti báða dagana í smá göngur og hér er smá um þann fyrri. Frábært svæði sem er ekki nema rétt rúmar þrjár klukkustundir frá Höfuðborgarsvæðinu (á ágætis bíl) en er samt dálítið háð að hafa bíl til þess að geta keyrt að gönguleiðum því ansi langt getur verið á milli staða. Til dæmist er Hrútfell og Regnbúðajökull fjall ekki langt frá sem ég á bókað eftir að ganga síðar!
Gönguleiðin frá Hveravöllum að Strýtum er u.þ.b. 13 km löng, 6,5 km í hvora átt. Á Vísindavefnum segir í svari eftir Ármann Höskuldsson um Hveravelli:
“Kjalhraun er því greitt yfirferðar og er tilvalið að ganga frá Hveravöllum suður að Strýtum, toppgígunum í kolli Kjalhraunsdyngjunnar. Frá Hveravöllum að gígnum er um fimm til sex kílómetra gangur en dyngjan er aflíðandi og því er heildarhækkun aðeins um 200 metrar á þessari leið. Strýturnar fá nafn sitt af fallegum hraunstrýtum sem raða sér umhverfis toppgíginn sjálfann, sem er um hálfur kílómetri í þvermál og því stórfenglegt náttúrufyrirbrigði.”
Sem í stuttu máli þýðir auðveld ganga að flottum stað!
Gangan er merkt með litlu skilti við svæðið á Hveravöllum. Gengið er beint í suður allan tímann eftir vel greinilegum stíg. Hann liggur gegnum hraunið, upp dyngjuna, í gegnum margar rosalega flottar myndanir. Til dæmis eru á leiðinni Eyvindarétt og Eyvindahellir sem bæði eru vel merkt með skiltum. Við höfðum með okkur smá nesti til að borða þegar við komum að Strýtum sem var fínt eftir þann legginn enda var helmingur þeirra sem gengu 13 ára eða yngri.
Stuttur póstur, stutt ganga en ef maður á hálfan dag eða svo á Hveravöllum þá er þetta tilvalin viðbót við það að ganga um svæðið og jafnvel skella sér í laugina eftir á.





